24 tíma nálgunin

Phil Race (2014) hefur nýtt sér þessa aðferð með góðum árangri. Hann lætur nemendur sína skila verkefni t.d. í fyrsta tíma kl. 10 á mánudegi (vitandi að þeir hafa flestir verið að glíma við verkefnið fram á síðasta skiladag svo það er þeim ennþá ofarlega í huga). Þegar nemendur hafa skilað verkefninu afhendir kennari nemendum endurgjafarblað sem hann hefur undirbúið fyrir tímann. Á þessu blaði er t.d. að finna:

  • Útskýringar á vandamálum sem oftast hafa komið upp í sambærilegum verkefnum.
  • Sýnishorn af góðri lausn.
  • Vísanir í gott ítarefni sem gæti  hjálpað nemendum.
  • Sýnisdæmi ef það á við.

Kennari þarf að gæta þess að merkja vel hvern lið svo hann geti vísað í hann við frekari endurgjöf nemendaverkefna. Hann gefur nemendum tíma til að skoða blaðið  og fer svo yfir helstu atriðin með hópnum, heldur svo hefðbundnum fyrirlestri áfram. Þegar kennari svo fer yfir verkefni nemenda getur hann látið duga að vísa í endurgjafarblaðið þegar það á við og einbeitt sér að því að veita einstaka nemendum endurgjöf utan þeirra atriða.

Race, P (2014) Making Learning Happen (3. útgáfa), London: Sage.