Endurgjöf er sá þáttur sem hefur mest áhrif á nám nemenda, en jafnframt sá þáttur sem kemur hvað verst út þegar viðhorf nemenda til gæða háskólanáms eru könnuð.
Lykilatriði í endurgjöf eru að samtal milli nemenda og kennara eigi sér stað, að nemendur skilji endurgjöfina og hún komi fljótt og tímanlega til að nemendur geti lært af henni.
Endurgjöf getur verið bæði hluti af lokamati og leiðsagnarmati.
Rafrænar leiðir til endurgjafar eru fjölmargar og margar hverjar byggðar inn í námsumsjónakerfi. Þannig er t.d. með endurgjöf í Moodle og Turnitin. Þar má lesa inn athugasemdir í formi hljóðskrár, búa til athugasemdabanka o.fl.
Enda þótt endurgjöf sé mikilvæg fyrir nemendur er ekki síður mikilvægt að kennari viti hvernig nemendur standa og geta þannig hagað yfirferð á námsefni eftir því hversu vel nemendum gegnur að meðtaka það.
Góðar leiðir til að virkja nemendur í námi og athuga getu þeirra er að nota Socrative.com, Kahoot.com og Mentimeter.com. Þetta eru allt leiðir sem efla gagnvirkni í tímum og auka á þátttöku nemenda.
Phil Race (2014) hefur nýtt sér þessa aðferð með góðum árangri. Hann lætur nemendur sína skila verkefni t.d. í fyrsta tíma kl. 10 á mánudegi (vitandi að þeir hafa flestir verið að glíma við verkefnið fram á síðasta skiladag svo það er þeim ennþá ofarlega í huga). Þegar nemendur hafa skilað verkefninu afhendir kennari nemendum endurgjafarblað sem hann hefur undirbúið fyrir tímann. Á þessu blaði er t.d. að finna:
- Útskýringar á vandamálum sem oftast hafa komið upp í sambærilegum verkefnum.
- Sýnishorn af góðri lausn.
- Vísanir í gott ítarefni sem gæti hjálpað nemendum.
- Sýnisdæmi ef það á við.
Kennari þarf að gæta þess að merkja vel hvern lið svo hann geti vísað í hann við frekari endurgjöf nemendaverkefna. Hann gefur nemendum tíma til að skoða blaðið og fer svo yfir helstu atriðin með hópnum, heldur svo hefðbundnum fyrirlestri áfram. Þegar kennari svo fer yfir verkefni nemenda getur hann látið duga að vísa í endurgjafarblaðið þegar það á við og einbeitt sér að því að veita einstaka nemendum endurgjöf utan þeirra atriða.
Race, P (2014) Making Learning Happen (3. útgáfa), London: Sage.
Margir kennarar sem hafa orðið reynslu af kennslu vita vel hvaða og hvers konar mistök nemendur gera oftast við lausn verkefna.
Það getur verið leiðigjarnt að skrifa aftur og aftur sömu athugasemdirnar í verkefni nemenda.
Ein leið til að leysa þennan vanda er að kennarar komi sér upp athugasemdabanka með algengum athugasemdum sem þeir geta svo sett rafrænt inn í verkefni nemenda þar sem þær eiga við.
Ritstulda- og endurgjafarforritið Turnitin gefur kennurum kost á búa sér til slíkan banka og þennan möguleika er einnig að finna í Moodle.
Aðferð svipuð 24 tíma nálguninni kemur frá Race, Brown og Smith (2005) en hún felst í því að strax í næsta tíma eftir skil á verkefni gefur kennari nemendahópi skýrslu yfir almenna frammistöðu nemenda – hvað gekk vel – hver virðast helstu vandamálin í lausn verkefnis og hvernig mætti leysa þau.
Kostir þessarar aðferðar er að nemendahópurinn er líklega enn með verkefnið í huga og getur tengt það við athugasemdir kennara. Þannig geta þeir því sem næst strax brugðist við og lært af endurgjöfinni.
Heimild:
Race, P., Brown, S. og Smith, P. (2005). 500 Tips on Assessment(2. útgáfa), London: Routledge.
Endurgjöf í stórum hópum getur verið vandasöm þar sem erfitt er að gefa hverjum og einum nemanda einstaklingsmiðaða endurgjöf eins og æskilegt er til að þeir læri af því. Hér til hliðar eru reifaðar nokkrar leiðir sem reynst hafa vel til endurgjafar almennt, ekki síst í stórum hópum. Guðrún Geirsdóttir dósent á MVS og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar hefur tekið þessar endurgjafaleiðir saman í bæklingi sem nálgast má hér neðar.
Það dregur enginn dul á að það getur verið erfitt og tímafrekt að finna leiðir til að gefa nemendum í stórum hópum endurgjöf. Það er því mikilvægt að sá tími sem kennarar nýta til þess skili sér í betra námi. Háskólinn í Reading hefur útbúið gátlista til að aðstoða kennara við að meta hversu vel þeim gengur að huga að endurgjöf í námskeiðum sínum. Gátlistinn er hluti af gæðamatsúttektum skólan en nýtist vel til að líta í eigin barm og skoða hversu vel gengur með endurgjöfina.
Kennarar geta hljóðritað athugasemdir við verkefni og hengt hljóðskrána við þau. Þetta þykir mörgum kennurum bæði persónulegra en einnig fyrirbyggja að nemendur taki athugasemdum illa.
Dæmi um þetta er að finna hér: http://www.youtube.com/watch?v=s0d-fzUmZ28. Þennan valkost er einnig að finna í Canvas, Moodle og Turnitin.
Lykilgreinar um endurgjöf í námi
- Gibbs, G. (2015). 53 Powerful Ideas All Teachers Should Know About. Making feedback work involves more than giving feedback – Part 1 the assessment context. Idea Number 27, January 2015. SEDA:
- Gibbs, G. (2015). 53 Powerful Ideas All Teachers Should Know About. Making feedback work involves more than giving feedback. Idea Number 28, January 2015 – Part 2 The students SEDA:
- Guðrún Geirsdóttir. Endurgjöf í stórum hópum.
- Jonsson, A. (2012). Facilating productive use of feedback in higher education. Active lerning in higher education, 14(1), 63-76. (samantekt á rannsóknum á því hvernig nemendur nýta sér eða nýta sér ekki endurgjöf).
- Nicol, D.J. & Macfarlane, D. (2006). Formative assessment and self-regulated learning: A model and seven principles of good feedback practice. Studies in higher education, 31(2), 199–218.
- Nicol, D. (2010) From monologue to dialogue: improving written feedback processes in mass higher education, Assessment & Evaluation in Higher Education, 35:5, 501–517.
- Nicol, D., Thomson, A. & Breslin, C. (2014) Rethinking feedback practices in higher education: a peer review perspective, Assessment & Evaluation in Higher Education, 39:1, 102-122.
- Hattie, J., & Timperley, H. (2007) The power of feedback. Review of Educational Research. Vol:77 No. 1. Accessed at
- HEA Feedback toolkit (2013)
- Watling,C.; Driessen,E.; van der Vleuten, C. P. M. & Lingard, L. (2014). Learning culture and feedback: an international study of medical athletes and musicians. Medical Education; 48: 713–723
- William, D. (2013). Assessment: The bridge between teaching and learning. Voices from the middle, 21(2), 15-20.
Endurgjöf á verkefni er þar sem skórinn kreppir helst í kennslu við Háskóla Íslands að mati nemenda. Þeir telja að endurgjöf kennara sé oft óljós og berist þeim of seint til að verða þeim til gagns við nám. Sístækkandi nemendahópar gera kennurum hins vegar erfitt um vik að veita góða endurgjöf þó vitað sé að slík endurgjöf sé nemendum mikilvæg í námi.
Matskvarðar (e. rubrics) eru viðmið sem notuð eru til að leggja mat á verkefni nemenda. Notkun matsvarða auðveldar kennurum yfirferð verkefna og veitir nemendum leiðbeinandi endurgjöf á vinnu þeirra. Notkun matskvarða eykur líkur á samræmdri yfirferð verkefna, ekki síst í stórum hópum þar sem margir koma að yfirferðinni. Þá veitir notkun matskvarða ákveðið gagnsæi fyrir nemendur þannig að þeir átta sig á því hvernig vinna þeirra er metin, ekki síst ef matskvarðar eru þeim aðgengilegir áður en þeir hefja vinnu við verkefnin og vita þannig hvaða vinnu þeir þurfa að inna af hendi til að ljúka verkefninu á viðhlýtandi hátt.
Það getur tekið tíma að útbúa góðan matskvarða en sú vinna getur bæði sparað kennara tíma við yfirferð verkefna og verið nemendum góður stuðningur í að vinna verkefni. Gátlistar og matskvarðar eru til af öllu tagi. Hér er t.d. sýnishorn frá háskólanum í Reading af kvarða þar sem lagt er mat á akademíska ritun nemenda: http://www.reading.ac.uk/web/FILES/EngageinFeedback/Blank_essay_feedback_sheet.pdf