ExpiredSilja Bára verður með okkur í hinu árlega jólakennslukaffi Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands

We're sorry, but all tickets sales have ended because the event is expired.
  • 12/12/2019
    15:00 - 16:00

Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til kennslu árið 2019.

Af því tilefni hefur Kennslumiðstöð beðið Silju Báru um að segja okkur frá kennslunni sinni í jólakennslukaffi Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, Setbergi, fimmtudaginn 12. desember kl. 15-16.

Allir eru velkomnir að koma, hlusta á Silju Báru og taka þátt í umræðum um kennslumál.

Nánari upplýsingar gefur: Sigurbjörg Jóhannesdóttir (sigurbjorg@hi.is / 525-4966)

Í umsögn valnefndar segir: „Silja Bára hefur alla tíð haft brennandi áhuga á kennslu og kennsluþróun á háskólastigi. Hún hefur sérlega skapandi nálgun á kennslumál og hefur verið óhrædd við að fara nýjar leiðir til þess að virkja nemendur í kennslustofunni. Hún leggur mikið upp úr því að vekja áhuga nemenda á viðfangsefninu og tengja það við daglegt líf þeirra. Í því skyni notar hún m.a. samfélagsmiðla til að benda á efni sem tengist viðfangsefninu hverju sinni auk þess sem hún nýtir vendikennslu með árangursríkum hætti.

Silja Bára hefur verið mjög farsæll kennari bæði í kennslustofunni og sem leiðbeinandi í lokaverkefnum, en nemendur hennar hafa hvað eftir annað unnið til verðlauna fyrir ritgerðir sínar.

Hún hefur jafnframt sinnt kennsluþróun á Félagsvísindasviði af mikilli alúð og áhuga og var formaður kennslunefndar sviðsins frá 2015 til 2017. Jafnframt hefur Silja Bára tekið þátt í fjölda verkefna sem styrkt hafa verið af kennsluþróunarsjóði, nú síðast verkfærakistu leiðbeinandans þar sem hún og samstarfskona hennar tókust á við þær áskoranir sem leiðbeinendur lokaverkefna standa frammi fyrir. Silja Bára var upphafsmaður að svokölluðu „kennsluborði“ Stjórnmálafræðideildar þar sem kennarar deildarinnar ræða kennslu og fá til sín sérfræðinga til skrafs og ráðagerða.“